Hæ. Í 32. gr. frumvarps um náttúruvernd ( http://www.althingi.is/altext/141/s/0537.html) er kveðið á um kortagrunna. Mig langar að skila inn umsögn um málið í mínu nafni (þar sem samtökin vilja ekki að almenningur segist tala fyrir þeirra hönd) en vil vita hvort þið viljið að ég taki eitthvað sérstaklega fyrir.
Greinin er svona: 32. gr. Kortagrunnur um vegi og vegslóða. Ráðherra skal í reglugerð kveða á um gerð kortagrunns þar sem merktir skulu vegir og vegslóðar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum um. Gerð kortagrunnsins skal vera í höndum Landmælinga Íslands sem jafnframt annast uppfærslu hans í samræmi við reglur sem ráðherra setur. Ráðherra staðfestir kortagrunninn og skal útgáfa hans auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Upplýsingar úr kortagrunninum skulu veittar án endurgjalds og skulu Landmælingar Íslands sjá til þess að þær séu aðgengilegar. Í reglugerð um gerð kortagrunns skal kveða á um samráð við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem og um kynningu grunnsins. Við mat á því hvort tilteknir vegslóðar skuli merktir í kortagrunninn skal sérstaklega líta til þess hvort akstur á þeim sé líklegur til að raska viðkvæmum gróðri, valda uppblæstri eða hafa að öðru leyti í för með sér náttúruspjöll. Einnig má líta til þess hvort um greinilegan og varanlegan vegslóða sé að ræða og hvort löng hefð sé fyrir akstri á honum. Heimilt er ráðherra að ákveða að umferð á tilteknum vegslóðum skuli takmarka við ákveðnar gerðir ökutækja, vissa tíma eða við akstur vegna ákveðinna starfa. Upplýsingar um vegslóða í kortagrunni fela ekki í sér að þeir séu færir öllum vélknúnum ökutækjum og leiða ekki til ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á viðhaldi þeirra. Eftir útgáfu kortagrunns skv. 1. mgr. skulu útgefendur vegakorta, þar á meðal stafrænna korta fyrir GPS-tæki og álíka búnað, sjá til þess að upplýsingar á kortum þeirra séu í samræmi við kortagrunninn. Ef á þessu verður misbrestur er Umhverfisstofnun heimilt að krefjast þess með skriflegri áskorun að útgefendur hætti dreifingu vegakorta sem veita rangar upplýsingar um heimildir til aksturs vélknúinna ökutækja á vegslóðum og að þeir innkalli þau frá öðrum dreifingaraðilum. Verði útgefendur ekki við áskorun stofnunarinnar innan tilskilins frests er henni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni, sbr. 3. mgr. 87. gr. Í öðrum ákvæðum frumvarpsins gæti verið kveðið á um önnur gögn sem gætu vakið áhuga fólks og þau mögulega átt heima í OSM. Endilega lesið yfir frumvarpið og athugið hvort það sé eitthvað sem þið mynduð vilja hafa öðruvísi (og tengist OSM). Með kveðju, Svavar Kjarrval
signature.asc
Description: OpenPGP digital signature
_______________________________________________ Talk-is mailing list Talk-is@openstreetmap.org http://lists.openstreetmap.org/listinfo/talk-is