Sælt veri fólkið.

Vil minna fólk á Android-forritið StreetComplete sem getur verið mjög
gagnlegt til þess að skrá inn tilteknar upplýsingar um hluti sem eru
komnir inn á OpenStreetMap. Þá getur maður gengið um og fengið upp
spurningar um ýmis fyrirbæri í nágrenninu sem maður getur síðan svarað.
Áherslan er samt lögð á einfaldleika upplýsinganna sem maður þyrfti að
afla. Breytingarnar eru settar inn gegnum OSM aðgang hvers og eins
þannig að viðkomandi þarf að skrá sig inn í gegnum forritið til að
breytingarnar fari inn.

Til að mynda hef ég verið að fylla inn upplýsingar um hvort einstaka
strætóbiðstöðvar eru með biðskýli eða ekki. Síðan eru aðrar tegundir
spurninga eins og hversu mörgum hjólum sé hægt að leggja á
hjólreiðastæði, hversu margar hæðir hús hefur, hvers kyns gangbraut er
um að ræða, og hvort boðið sé upp á salernisaðgengi á tilteknum stað.
Til að sjá fleiri dæmi um spurningar er hægt að skoða
https://wiki.openstreetmap.org/wiki/StreetComplete/Quests . Þetta gæti
verið gagnlegt fyrir fólk sem er að leita að tylliástæðu til þess að
fara út í göngutúr. ;)

Nýlega var bætt við þeirri virkni í forritið að fólk getur hunsað
tilteknar spurningar og einnig sett forgangsröðun á þær. Hvet fólk til
þess að kíkja á forritið og þau sem hafa þegar kíkt á það að prófa það
aftur.

Forritið er fáanlegt í Play Store á þessari slóð:
https://play.google.com/store/apps/details?id=de.westnordost.streetcomplete

Með kveðju,
Svavar Kjarrval
_______________________________________________
Talk-is mailing list
Talk-is@openstreetmap.org
https://lists.openstreetmap.org/listinfo/talk-is

Reply via email to