Hæ. Bráðlega ætla ég að taka herferð á Íslandi við að fara yfir „fixme“ tögg (og álíka umritanir á því).
Fyrir þau sem hafa ekki kynnt sér þau tögg voru þau aðallega notuð þegar ekki var í boði að setja inn athugasemdir á kortið með OSM notes (og heldur ekki OSM Bugs á þeim tíma). Tilgangurinn var að notandinn gat bætt við taggi með nafninu ‚fixme‘ og sett inn athugasemd um eitthvað sem þyrfti að laga við þann hlut, hvort sem það var fyrir notandann sjálfan eða einhvern annan. Þau tögg eru samt ekki (lengur) ákjósanleg til þess að miðla slíkum upplýsingum. Eitt vandamálið er að í nokkuð mörgum tilvikum hafa breytingarnar sem athugasemdirnar kveða á um átt sér stað en viðkomandi, hvort sem það er sami notandi eða annar, hefur ekki fjarlægt taggið í kjölfar lagfæringarinnar. Athugasemdir með „resurvey“ eru oft enn þá inni í grunninum þrátt fyrir að legu hlutarins hafi verið breytt síðar í kjölfar aðgengis að loftmyndum og/eða annarra mælinga. Ástæðan gæti verið að viðkomandi skilur ekki tungumálið í athugasemdinni eða notaði tól/app sem gerði notandanum ekki kleift að sjá, breyta eða taka þær út. Þetta er heldur ekki, almennt séð, tagg sem notendur fylgjast sérstaklega með. Herferðin snýst um það að fara skipulega yfir athugasemdirnar og meta hvort enn sé ástæða til þess að halda þeim. Ef, svo dæmi sé tekið, athugasemd á slíku taggi er „resurvey“ (yfir 200 tilfelli á Íslandi) og hluturinn lítur út fyrir að passa nægilega vel við loftmyndir, þá mun ég fjarlægja taggið. Ef það er engin loftmynd af tilteknu svæði geri ég ráð fyrir, allavega að jafnaði, að láta þau tögg í friði ef þau hafa eitthvað að gera með legu hlutarins. Síðan eru einhver ‚fixme‘ með beiðnum um tiltekin tögg sem ég geri ráð fyrir að fjarlægja enda eru mörg greiningartól í boði til að koma auga á svona. Hef ekki í hyggju að taka út merkilegar athugasemdir sem gætu enn átt við og mun því, eftir því sem við á, búa til OSM note í staðinn. Ef það er eitthvað sem ég ætti sérstaklega að hafa í huga við yfirferðina eða andmæli við framkvæmd þessarar yfirferðar yfir höfuð, endilega látið vita af því fyrir næsta laugardag (6. ágúst). Ef þið hafið sjálf áhuga á að framkvæma verkið með mér mun ég ekki standa í veg fyrir því, enda er þetta samvinnuverkefni. :) Með kveðju, Svavar Kjarrval
signature.asc
Description: OpenPGP digital signature
_______________________________________________ Talk-is mailing list Talk-is@openstreetmap.org https://lists.openstreetmap.org/listinfo/talk-is